Home Page > PEN Declaration on Digital Freedom > Declaration on Digital Freedom (Icelandic)

PEN lítur á stafræna miðlun sem fyrirheit um grundvallarréttinn til tjáningafrelsis. En á sama tíma er brotið á tjáningarfrelsi ljóðskálda, leikskálda, ritgerðasmiða, skáldsagnahöfunda, rithöfunda, bloggara og blaðamanna fyrir að nota stafræna miðla.

Ríkisborgarar fjölmargra landa standa frammi fyrir mjög takmörkuðu aðgengi og afnotum stafrænna miðla meðan stjórnvöld hagnýta sér stafræna tækni til þess að bæla niður tjáningarfrelsi og hafa eftirlit með einstaklingum. Einkageirinn, einkum og sér í lagi tæknifyrirtæki, hafa stundum auðveldað stjórnvöldum ritskoðun og eftirlit.

Á Heimsþingi PEN International í Gyeongju í Kóreu árið 2012 samþykktu PEN-félagar þessa Yfirlýsingu um stafrænt frelsi þar sem fram kemur í fáum orðum afstaða PEN til þeirrar ógnar sem tjáningarfrelsi á stafrænni öld stendur frammi fyrir.

1. grein
Einstaklingar í sigtinu

1. Allir menn hafa rétt til að nota stafræna miðla til þess að tjá sig með frjálsum hætti án þess að óttast refsingar eða ofsóknir.
a. Einstaklingar, sem nota stafræna miðla, njóta fullrar verndar á tjáningarfrelsi samkvæmt alþjóðalögum og viðmiðunarreglum.
b. Stjórnvöld mega ekki lögsækja einstaklinga né krefjast refsingar gegn einstaklingum sem nota stafræna miðla til þess að koma á framfæri upplýsingum, skoðunum eða hugmyndum.
c. Stjórnvöldum ber að standa virkan vörð um tjáningarfrelsi í stafrænum miðlum með setningu laga og með því að framfylgja þeim lögum og viðmiðunarreglum sem eru í gildi.

2. grein
Ritskoðun

2. Allir menn hafa rétt til að leita upplýsinga og veita þeim viðtöku gegnum stafræna miðla.

a. Stjórnvöld skulu ekki ritskoða, takmarka né hafa eftirlit með efni stafrænna miðla hvort sem efnið er upprunnið innanlands eða erlendis.

b. Í undantekningartilfellum verður öll takmörkun á efni stafrænna miðla að fylgja alþjóðalögum og viðmiðunarreglum um takmarkanir á tjáningarfrelsi, svo sem vegna hvatningar til ofbeldis.

c. Stjórnvöld skulu ekki loka aðgengi að né takmarka notkun á stafrænum miðlum, jafnvel á ólgu- og krepputímum. Eftirlit með aðgengi að stafrænum miðlum, einkum og sér í lagi í miklum mæli, felur óhjákvæilega í sér brot á réttinum til tjáningarfrelsis.

d. Stjórnvöld skulu hlúa að og standa vörð um fullan aðgang allra manna að stafrænum miðlum.

3. grein
Eftirlit

3. Allir menn hafa rétt til að vera lausir við eftirlit stjórnvalda með stafrænum miðlum.

a. Eftirlit, hvort sem sá sem það beinist að veit af því eða ekki, gerir menn raga við málflutning því að það innleiðir möguleika á ofsóknum og ótta við refsingar. Þegar vitað er um eftirlitið, elur það á andrúmslofti sjálfsritskoðunar sem skaðar frjálsa tjáningu enn meir.

b. Yfirleitt skulu stjórnvöld ekki reyna að komast inn í stafræn samskipti milli einstaklinga né fylgjast með einkanotum stafrænna miðla, rekja færslur einstaklinga um stafræna miðla, breyta tjáningu einstaklinga né almennt séð hafa eftirlit með einstaklingum.

c. Þegar stjórnvöld hafa slíkt eftirlit – í undantekningartilfellum og í tengslum við réttmæta framkvæmd laga eða rannsóknir sem varða þjóðaröryggi – verður allt eftirlit með einstaklingum eða vöktun samskipta um stafræna miðla að standast tilhlýðileg alþjóðalög og viðmiðunarreglur um ferla sem gilda um lögmæta leit, svo sem að útvega heimild með réttarboði.

d. Fullt tjáningafrelsi felur í sér rétt til einkalífs; öll núgildandi alþjóðalög og viðmiðunarreglur um einkalíf gilda um stafræna miðla og ný lög og viðmið um vernd kunna að vera nauðsynleg.

e. Söfnun og varðveisla á vegum stjórnvalda á gögnum og öðrum upplýsingum sem verða til í stafrænum miðlum, þar með taldir útdrættir, skulu standast alþjóðalög og viðmiðunarreglur um einkalíf, svo sem að varðveisla gagnanna sé tímabundin, í samræmi við tilefnið og að viðkomandi sé gert viðvart á skýran hátt.

4. grein
Viðskipti og mannréttindi

4. Einkageirinn og sér í lagi tæknifyrirtæki eru háð réttinum til frjálsrar tjáningar og mannréttindum.

a. Grunnreglurnar í þessari yfirlýsingu gilda einnig um einkageirann.

b. Fyrirtækjum ber að virða mannréttindi, þar á meðal réttinn til tjáningarfrelsis og verja þessi réttindi jafnvel þótt landslög og reglugerðir verndi þau ekki.

c. Tæknifyrirtækjum ber skylda til að skilgreina hvernig afurðir þeirra, þjónusta og heildarstefna hafa áhrif á mannréttindi í löndunum sem þau hyggjast starfa í. Ef brot eru líkleg eða brot tengjast óvefengjanlega notkun afurða eða þjónustu, skulu fyrirtækin breyta áformum sínum eða hætta við þau til þess að virða mannréttindi.

d. Tæknifyrirtæki skulu fella grunnreglur um tjáningarfrelsi inn í kjarnastarfsemi sína svo sem að hanna vöru með innbyggðar einkalífsvarnir.

e. Ef starfsemin reynist hafa brotið gegn réttinum til tjáningarfrelsis, skulu tæknifyrirtækin bæta þeim skaðann sem fyrir honum urðu jafnvel þótt stjórnvöld kveði ekki á um réttarúrræði.